Eiður hélt að hann væri á leið til Liverpool

Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Chelsea gegn Fulham.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með Chelsea gegn Fulham. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Eiður Smári Guðjohnsen reiknaði með að vera á leiðinni til Liverpool áður en hann gekk til liðs við Chelsea frá Bolton Wanderers sumarið 2000.

Þetta upplýsir hann í hlaðvarpsviðtali við Sky Sports þar sem hann og félagi hans í framlínu Chelsea, Hollendingurinn Jimmy Floyd Hasselbaink, ræddu málin út frá ýmsum hliðum.

Chelsea keypti Eið 19. júní það sumar fyrir 460 milljónir íslenskra króna á þáverandi gengi en Gianluca Vialli var þá knattspyrnustjóri Chelsea. Hann vissi ekki að þessi efnilegi ungi íslenski framherji væri aðdáandi hans en það gerði útslagið, að sögn Eiðs.

„Hann vissi ekki að hann hefði mætt pabba í úrslitaleik í Evrópukeppni. Vialli lék með Sampdoria og faðir minn með Anderlecht. Þeir skiptust á treyjum í leikslok því ég hafði beðið pabba um að fá treyjuna hjá Vialli fyrir mig. Það þurfti því ekki mikið til að sannfæra mig,“ segir Eiður í viðtalinu.

„Ég hélt til að byrja með að ég væri á leiðinni til Liverpool. Gerard Houllier sýndi mikinn áhuga og hafði mætt á marga leiki hjá okkur. Staðan var þannig þegar Chelsea kom til sögunnar. Þegar Luca hringdi var málið afgreitt,“ segir Eiður Smári.

mbl.is