Ratcliffe ætlar ekki að kaupa Chelsea

Jim Ratcliffe er búinn að fjárfesta í Formúlu 1, franska …
Jim Ratcliffe er búinn að fjárfesta í Formúlu 1, franska og svissneska fótboltanum, maraþonhlaupi Kipchoge og styrkir helstu siglinga- og hjólreiðalið Bretlands. En hann ætlar ekki að kaupa enska knattspyrnuliðið Chelsea. AFP

Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands, laxveiðimaður og landeigandi á Norðausturlandi, segist í viðtali við BBC í dag ekki hyggja á frekari fjárfestingar í íþróttaheiminum í bili, þar sem fyrirtæki hans hafi í nógu að snúast sem stendur.

Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki um að Ratcliffe ætli sér að kaupa ráðandi hlut í enska knattspyrnuliðinu Chelsea, en fyrirtæki hans Ineos er þegar samstarfsaðili Mercedes-formúluliðsins auk þess sem fyrirtækjasamstæða Ratcliffe á ráðandi hlut í franska knattspyrnuliðinu Nice og svissneska knattspyrnuliðinu Lausanne.

Þá studdi Ineos einnig við hið ótrúlega maraþonhlaup Eliud Kipchoge á síðasta ári og fjármagnar helstu hjólreiða- og siglingalið Bretlands, sem hvort um sig bera nafn fyrirtækisins.

Chelsea er hins vegar ekki á dagskránni, segir Ratcliffe við BBC í dag. Hann segir að honum þyki verðmatið á liðunum í ensku úrvalsdeildinni „fremur kjánalegt“ og virkar sáttur með að einbeita sér að áframhaldandi uppbyggingu Nice í Frakklandi.

Ratcliffe er kominn í Formúlu 1. Hér er hann ásamt …
Ratcliffe er kominn í Formúlu 1. Hér er hann ásamt Toto Wolff, liðsstjóra Mercedes-liðsins, á kynningarfundi í dag. AFP
mbl.is