United að endurheimta lykilmann

Scott McTominay er að koma til eftir meiðsli.
Scott McTominay er að koma til eftir meiðsli. AFP

Miðjumaðurinn Scott McTominay er að verða klár í slaginn á nýjan leik eftir meiðsli. Skotinn hefur misst af síðustu ellefu leikjum Manchester United vegna hnémeiðsla, en hann var fastamaður í byrjunarliði United áður en hann meiddist.

„Ég er allur að koma til,“ sagði hann í viðtali sem birtist á heimasíðu enska knattspyrnufélagsins. Hann ferðaðist með liðsfélögum sínum til Spánar, þar sem leikmenn æfa í hlýju veðri. 

„Auðvitað væri ég frekar til í að spila en horfa á. Þú vilt vera með og hjálpa liðinu. Þetta hefur verið erfitt, stundum meira andlega en líkamlega. Þetta eru fyrstu alvörumeiðslin mín og ég hef sem betur fer fengið mikla hjálp. 

Ég stefni á að byrja að æfa í þessari viku og svo sjáum við til hvað gerist. Ég mun gera allt sem ég get til að komast á völlinn aftur sem fyrst,“ sagði McTominay. 

Næsti leikur United er á útivelli gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á mánudag eftir viku. 

mbl.is