Arsenal var á niðurleið þegar ég kom

Unai Emery var rekinn frá Arsenal eftir átján mánuði í …
Unai Emery var rekinn frá Arsenal eftir átján mánuði í starfi. AFP

Unai Emery, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, segist ekki hafa fengið þann tíma sem hann hefði þurft til að koma liðinu aftur á rétta braut en hann var rekinn í nóvember eftir átján mánuði í starfi.

Spánverjinn sagði í viðtali við France Football að Arsenal hefði verið búið að vera á niðurleið í tvö ár þegar hann tók við starfinu af Arsene Wenger.

„Við stoppuðum niðursveifluna og vorum byrjaðir að rétta félagið við með því að komast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar og enda í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar, bara stigi á eftir Tottenham þrátt fyrir að við fengjum aðeins eitt stig í síðustu fimm leikjunum.

Við vorum með keppnisréttinn í Meistaradeildinni í seilingarfjarlægð og misstum naumlega af honum þegar upp var staðið. En tímabilið í fyrra var gott og við fundum að við værum á réttri leið,“ sagði Emery.

Spurður um ástæðurnar fyrir slæmu gengi framan af þessu tímabili, sem varð til þess að hann missti starfið, sagði Spánverjinn að félagið hefði misst fjóra fyrirliða á einu bretti, Laurent Koscielny, Petr Cech, Aaron Ramsey og Nacho Monreal.

„Þetta eru sterkir persónuleikar sem við söknuðum á þessu tímabili og hefðum þurft á að halda til að vera áfram á réttri braut. Þá voru sumir af bestu mönnum liðsins með rangt hugarfar og kröfðust þess að fá meira en þeir voru sjálfir tilbúnir til að leggja að mörkum. Þegar þetta er allt saman skoðað er ljóst að við hefðum þurft meiri tíma til að koma í gegn þeim breytingum sem voru í gangi og verða að nýju og betra Arsenal-liði, sem var alltaf mitt markmið,“ sagði Emery.

Arftaki hans og landi Mikel Arteta hefur ekki heldur farið vel af stað og aðeins fagnað þremur sigrum í níu leikjum. Arsenal er í tíunda sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert