Einstakur knattspyrnustjóri

Jürgen Klopp hefur náð undraverðum árangri með Liverpool frá því …
Jürgen Klopp hefur náð undraverðum árangri með Liverpool frá því hann tók við liðinu í október 2015. AFP

Adrián, varamarkmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hrósaði Jürgen Klopp, stjóra Liverpool, í hástert í viðtali við BBC á dögunum. Adrián gekk til liðs við Liverpool á frjálsri sölu síðasta sumar og var fenginn til félagsins sem staðgengill fyrir Alisson, aðalmarkvörð liðsins. Adrián hefur hins vegar spilað mun meira en flestir reiknuðu með, meðal annars vegna meiðsla Alisson, og átti hann stóran þátt í sigri Liverpool í vítakeppni gegn Chelsea í úrslitum Ofurbikars Evrópu í Istanbúl.

„Það sem Jürgen hefur afrekað hjá Liverpool frá því hann tók við liðinu er stórkostlegt,“ sagði Adrián í samtali við BBC. „Þú þarft ekki annað en að horfa á töfluna í ensku úrvalsdeildinni og forskotið sem Liverpool er með. Það er líka svo auðvelt að vinna með honum því hann er alltaf brosandi, glaður, bjartsýnn og þægilegur í allri umgengni. Hann er vissulega knattspyrnustjórinn en hann hagar sér samt alltaf bara eins og hver annar leikmaður innan hópsins.“

„Hann er mjög náinn leikmönnum liðsins og það er ein af ástæðum þess að það hafa allir mikla trú á því sem hann hefur fram að færa. Hann hefur sannfært okkur alla um eigin hæfileika og honum hefur tekist að sanna það fyrir liðinu að allt sem hann leggur upp með gengur á endanum. Hann er líka einstaklega góður í því að greina leikinn á meðan hann er í gangi og miðla skilaboðum og leiðbeiningum til okkar á meðan leik stendur.“

„Það er vissulega mikil ákefð á öllum æfingum og hann er mjög ástríðufullur bæði í leikjum sem og á æfingasvæðinu. Það myndi ekki ganga öðruvísi því við spilum fótbolta af mikilli ákefð. Hann er ekki bara frábær þegar kemur að taktík heldur líka frábær manneskja. Hann er besti hópstjóri sem ég hef unnið með og hann stendur þétt við bakið á öllum í liðinu, sama hvað bjátar á,“ bætti spænski markvörðurinn við.

mbl.is