Reiknað með að Ighalo spili gegn Chelsea

Odion Ighalo lék með Watford áður en hann fór til …
Odion Ighalo lék með Watford áður en hann fór til Kína. AFP

Reiknað er með að nígeríski framherjinn Odion Ighalo komi við sögu hjá Manchester United í leik liðsins gegn Chelsea á mánudagskvöldið kemur, enda þótt hann hafi ekki getað farið með liðinu í æfingaferð til Spánar vegna kórónuveirunnar.

United fékk Ighalo lánaðan frá Shanghai Shenhua í Kína á lokamínútunum áður en félagaskiptaglugganum var lokað að kvöldi 31. janúar. Hann kom til félagsins á þriðjudaginn í síðustu viku en fór ekki með í æfingaferðina þar sem hann var nýkominn frá Kína og talin var hætta á að vegna hertra reglna fengi hann ekki að koma aftur til Englands ef hann færi úr landi. Ighalo hefur því verið í Manchester og æft þar.

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri United staðfesti við Sky Sports að Ighalo færi beint í hópinn fyrir leikinn gegn Chelsea.

„Já, hann fer í leikinn með okkur. Við förum yfir líkamlegt stand á honum í vikunni og ég tel að hann verið klár til að spila. Við viljum koma honum inn í hlutina hjá okkur eins hratt og mögulegt er og hann er að sjálfsögðu afar ákafur í að spila með okkur,“ sagði Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert