Roma og Arsenal ná ekki saman

Henrikh Mkhitaryan í leik með Arsenal á síðustu leiktíð.
Henrikh Mkhitaryan í leik með Arsenal á síðustu leiktíð. AFP

Knattspyrnumaðurinn Henrikh Mkhitaryan mun að öllum líkum snúa aftur til Arsenal þegar lánssamningur hans við ítalska A-deildarfélagið Roma rennur út næsta sumar en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu.

Mkhitaryan gekk til liðs við Roma síðasta sumar en ítalska félagið er með forkaupsrétt á kappanum sem kom til Arsenal frá Manchester United í janúar 2018 í skiptum fyrir Alexis Sánchez. Mkhitaryan hefur hins vegar ekki staðið undir væntingum hjá enska félaginu.

Roma bauð 8,5 milljónir punda í sóknarmanninn í janúar en Arsenal hafnaði því boði umsvifalaust. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Arsenal vilji fá í kringum 20 milljónir punda fyrir leikmanninn en það er upphæð sem Roma er ekki tilbúið að borga.

Mkhitaryan hefur komið við sögu í tíu deildarleikjum með Roma á tímabilinu, þar af hefur hann byrjað fimm þeirra. Hann hefur skorað fjögur mörk í deildinni og lagt upp eitt mark en hann er orðinn 31 árs gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert