Ætlar sér að koma Everton í allra fremstu röð

Carlo Ancelotti er með skýra sýn á hvert hann vill …
Carlo Ancelotti er með skýra sýn á hvert hann vill fara með Everton. AFP

Carlo Ancelotti kveðst sjá fyrir sér að innan þriggja ára verði Everton í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar, í slagnum um helstu titlana og komið vel á veg í Evrópukeppni.

Hinn nýráðni knattspyrnustjóri Everton segir í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins í dag að þó hann sé með samning til ársins 2024 sjái hann fyrir sér að vera mun lengur við störf hjá félaginu. 

Ancelotti tók við Everton í fallsæti í byrjun desember en frá þeim tíma hefur aðeins Liverpool fengið fleiri stig í deildinni og liðið er komið í sjöunda sætið.

„Ég skrifaði undir samning til fjögurra og hálfs árs og langar til að dvelja hér allan þann tíma og gera mitt besta. Ef mögulegt er, vil ég vera lengur, það er hugmyndin hjá mér og minn metnaður er til þess. Félagið hefur mikinn metnað fyrir því að vera í hópi þeirra bestu í úrvalsdeildinni og spila reglulega í Evrópukeppni. Við stefnum að því.

Kjarninn í okkar liði er mjög sterkur og við erum með unga leikmenn sem eru á réttri leið. Ég tel að við munum bæta okkur ár frá ári. Eftir þrjú ár sé ég Everton fyrir mér nálægt toppi deildarinnar, í baráttu um titla og í Evrópukeppni," segir Ancelotti í viðtalinu.

Óhætt er að segja að Ancelotti þekki hvað það er að vera með lið í fremstu röð. Liðin sem hann hefur stýrt frá 1999 eru Juventus, AC Milan, Chelsea, París SG, Real Madrid, Bayern München, Napoli og nú Everton. Hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu þrisvar og fagnað meistaratitlum á Ítalíu, Englandi, í Frakklandi og Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert