Ánægður með Liverpool en sér ekki eftir neinu

Philippe Coutinho hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann fór frá …
Philippe Coutinho hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann fór frá Liverpool. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Philippe Coutinho kveðst alls ekki vera undrandi á þeirri velgengni sem Liverpool hefur notið síðan hann var seldur þaðan til Barcelona en segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun sinni að yfirgefa félagið.

Coutinho var seldur til Barcelona fyrir 142 milljónir punda í janúar 2018 en lítið hefur gengið hjá honum frá þeim tíma. Hann er í láni hjá Bayern München og mun vera falur fyrir 65 milljónir punda í sumar.

Á sama tíma keypti Liverpool varnarmanninn Virgil van Dijk og markvörðinn Alisson Becker og hefur verið nánast ósigrandi síðan. Coutinho sagði í viðtali við Sports Illustrated að hann sé fyrst og fremst stoltur af því að hafa komið við sögu hjá Liverpool og segir að velgengni liðsins frá brotthvarfi hans komi sér engan veginn á óvart.

„Liverpool er á miklu flugi og ég er ekki hissa á því. Við sáum það strax í fyrra þegar þeir unnu Meistaradeidlina en ég er ekki undrandi því hópurinn er stórkostlegur, sem og stjórinn. Ég er innilega ánægður fyrir þeirra hönd því ég á fullt af vinum í Liverpool, fyrrverandi liðsfélaga, en þar set ég punkt. Ég lít ekki til baka. Ég fór aðra leið og nú er ég á annars konar ferðalagi, eins og flestir aðrir. Ég er algjörlega einbeittur á að láta mína drauma rætast. Ég er ánægður með það sem ég gerði á sínum tíma og nú horfi ég fram á veginn,“ segir Coutinho í viðtalinu.

Hann hefur verið orðaður við endurkomu til Liverpool næsta sumar en einbeitir sér nú að baráttunni um þýska meistaratitilinn með Bayern og lokasprettinum í Meistaradeild Evrópu sem hefst síðar í þessum mánuði.

Coutinho, sem er 27 ára gamall, lék með Liverpool í fimm ár þar sem hann skoraði 41 mark í 152 leikjum í úrvalsdeildinni. Hann hefur gert 13 mörk í 52 deildarleikjum fyrir Barcelona og 6 mörk í 19 leikjum með Bayern München.

mbl.is