Gul viðvörun og úrvalsdeildarleikir í hættu

Óvíst er að leikur Norwich og Liverpool geti farið fram …
Óvíst er að leikur Norwich og Liverpool geti farið fram á laugardaginn. AFP

Breska veðurstofan hefur gefið út viðvörun fyrir helgina,  bæði laugardag og sunnudag, vegna djúprar lægðar sem gengur þá yfir Bretlandseyjar en stormurinn er kallaður Dennis og mun einnig koma við sögu hér á landi á næstu dögum.

Líklegt er að þetta hafi áhrif á leiki í ensku knattspyrnunni sem verði frestað. 

Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir nær allt England og Wales á laugardaginn en þá á að vera hávaðarok og ausandi rigning. Tveir leikir eiga fara fram í úrvalsdeildinni þann dag, Southampton - Burnley og Norwich - Liverpool, og þeir eru báðir í hættu.

Þá á að vera afar hvasst á norðurhluta Bretlandseyja á sunnudaginn og gefin hefur verið út gul viðvörun á því svæði en miðað við spána verður væntanlega leikfært í Birmingham og London þar sem Aston Villa mætir Tottenham og Arsenal mætir Newcastle. Þó gæti vatnsveðrið á laugardeginum leikið vellina grátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert