Kemur til Chelsea frá Ajax í sumar

Hakim Ziyech í leik með Marokkó á HM 2018.
Hakim Ziyech í leik með Marokkó á HM 2018. AFP

Chelsea hefur komist að samkomulagi við hollenska félagið Ajax um kaup á marokkóska knattspyrnumanninum Hakim Ziyech í sumar en talið er að kaupverðið sé ríflega 40 milljón evrur, samkvæmt Voetbal International í Hollandi.

Sagt er að samningur Ziyechs við Chelsea sé nánast í höfn en hann er 26 ára gamall sóknartengiliður sem hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Ajax. Hann átti stóran þátt í velgengni liðsins síðasta vetur þegar það komst óvænt í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu og var hársbreidd frá því að komast í úrslitaleikinn gegn Liverpool.

Ziyech er fæddur í Hollandi og lék með Heerenveen og Twente áður en hann kom til Ajax árið 2016. Hann hefur skorað 38 mörk í 107 leikjum með Ajax í hollensku úrvalsdeildinni og alls 47 mörk í 157 mótsleikjum. Þá hefur hann gert 14 mörk í 32 landsleikjum fyrir Marokkó og lék með liðinu á HM 2018 í Rússlandi. Ziyech lék annars með öllum yngri landsliðum Hollands en ákvað fyrir fjórum árum að spila fyrir Marokkó, heimaland foreldra sinna.

mbl.is