Kvarta yfir virðingarleysi og slæmri framkomu dómara

Jonathan Moss með gula spjaldið á lofti.
Jonathan Moss með gula spjaldið á lofti. AFP

Dan Gosling, leikmaður Bournemouth, segir að Jonathan Moss dómari eigi að biðja félagið og leikmenn þess afsökunar á framkomu sinni í þeirra garð um síðustu helgi þegar hann dæmdi viðureign liðsins gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Gosling sagði í viðtali við Daily Echo, staðarblaðið í Bournemouth, að auk þess að dæma ítrekað gegn liðinu í leiknum hefði talsmáti hans í garð leikmanna þess verið til skammar.

„Mér fannst hann sýna okkur mikla lítilsvirðingu í leiknum. Hann var með fullt af litlum athugasemdum í okkar garð og hæddist að okkur og stöðu okkar í deildinni. Dómararnir töluðu mikið um gagnkvæma virðingu þegar tímabilið hófst en Jon Moss sýndi okkur enga virðingu á sunnudaginn.

Dan Gosling er afar ósáttur við framkomu Jonathans Moss.
Dan Gosling er afar ósáttur við framkomu Jonathans Moss. AFP

Mér fannst framkoma hans vera til skammar. Orðbragð hans við mig og einn liðsfélaga minna á meðan leikurinn var í gangi var sérlega niðurlægjandi þar sem hann var stöðugt að minna okkur á að við værum í fallbaráttu. Ég tel að hann eigi að koma fram opinberlega og biðjast afsökunar á háttalagi sínu,“ sagði Dan Gosling.

Daily Echo segir að Bournemouth hafi kvartað yfir Moss til stjórnar úrvalsdeildarinnar og dómarasamtakanna, sem ekki hafi viljað tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

mbl.is