Selfyssingurinn bjargaði jafntefli

Jón Daði Böðvarsson hefur skorað tvö mörk í ensku B-deildinni …
Jón Daði Böðvarsson hefur skorað tvö mörk í ensku B-deildinni í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum fyrir enska B-deildarfélagið Millwall þegar liðið tók á móti Fulham í ensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Jón Daði jafnaði metin fyrir Milwall á 8. mínútu eftir að Aleksander Mitrovic hafði komið Fulham yfir strax á 3. mínútu.

Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Millwall og lék allan leikinn í fremstu víglínu en Selfyssingurinn var að skora sitt annað mark á tímabilinu í tólf leikjum í ensku B-deildinni. Þá hefur hann einnig lagt upp tvö mörk í deildinni en Millwall er í ellefta sæti deildarinnar með 46 stig, sjö stigum frá umspilssæti.

Mark Jóns Daða kom í veg fyrir að Fulham færi uppfyrir Leeds og í annað sæti deildarinnar. Í toppsætunum eru WBA með 62 stig, Leeds með 56, Fulham með 56, Brentford með 54, Nottingham Forest með 54, Preston með 53 og Bristol City með 53 stig.

mbl.is