Skoraði grimmt á Englandi - kominn í meistaralið Paragvæ

Emmanuel Adebayor skoraði 97 mörk í ensku úrvalsdeildinni.
Emmanuel Adebayor skoraði 97 mörk í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Emmanuel Adebayor, framherjinn reyndi frá Tógó sem lengi gerði garðinn frægan í enska fótboltanum, er kominn á nýjar slóðir í Suður-Ameríku.

Hann er genginn til liðs við Olimpia í Paragvæ eftir að hafa hætt hjá Kayserispor í Tyrklandi í desember af persónulegum ástæðum.

Í Paragvæ hittir hann gamlan liðsfélaga en fyrirliði Olimpia er Roque Santa Cruz sem lék við hlið hans hjá Manchester City á sínum tíma.

Adebayor, sem er 35 ára gamall, lék í ensku úrvalsdeildinni frá 2006 til 2016 með Arsenal, Manchester City, Tottenham og Crystal Palace en hann skoraði 97 mörk í 242 leikjum í deildinni fyrir þessi lið. Inn á milli var hann hálft tímabil í láni hjá Real Madrid og skoraði þar fimm mörk í fjórtán leikjum.

Eftir ferilinn á Englandi hefur Adebayor dvalið í Tyrklandi þar sem hann lék með Istanbul Basaksehir í tvö ár og síðan í hálft tímabil með Kayserispor.

Adebayor var kjörinn knattspyrnumaður ársins 2008 í Afríku en hann hefur skorað 32 mörk í 87 landsleikjum fyrir Tógó. Þar upplifði hann m.a. skotárásina sem liðsrúta landsliðsins varð fyrir árið 2010 þegar það var á leið í lokakeppni Afríkumótsins í Angóla og þrír starfsmenn liðsins létust.

Hans nýja félag, Olimpia, er í fjórða sæti eftir fjórar umferðir í deildinni en liðið varð meistari á síðasta ári, hefur unnið meistaratitilinn í 43 skipti og er eina lið Paragvæ sem hefur unnið félagsliðakeppni í Suður-Ameríku. Olimpia vann Copa Libertadores, stærstu keppni álfunnar, árin 1979, 1990 og 2002.

mbl.is