Skotmark Liverpool á leið til Tottenham

Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool að undanförnu.
Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool að undanförnu. AFP

Timo Werner, framherji þýska knattspyrnufélagsins RB Leipzig hefur verið sterklega orðaður við Liverpool að undanförnu. Enskir fjölmiðlar fullyrtu í vikunni að Liverpool ætlaði sér að virkja klásúlu í samningi framherjans sem hljóðar upp á 50 milljónir punda næsta sumar en Werner er 23 ára gamall þýskur landsliðsmaður.

Hann hefur skorað 20 mörk í 21 leik í þýsku 1. deildinni á tímabilinu og er næst markahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Robert Lewandowski, framherja Bayern München, sem hefur skorað 22 mörk. Þá hefur Werner einnig lagt upp sex mörk í deildinni en Jürgen Klopp sér hann sem fullkomna viðbót fyrir sóknarleik enska liðsins.

Indykaila News setti inn færslu á Twitter í morgun þar sem talað var um áhuga Liverpool á Werner. RB Leipzig svaraði færslunni og sagði Werner hins vegar vera á leið til Tottenham. Leikmaðurinn er hins vegar ekki að ganga til liðs við Tottenham því liðin mætast í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og fer fyrri leikur liðanna fram í London, 19. febrúar næstkomandi.

mbl.is