Fer hann frá Liverpool til Leicester í sumar?

Adam Lallana kemur af velli í leik með Liverpool í …
Adam Lallana kemur af velli í leik með Liverpool í vetur. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City, er talinn eiga góða möguleika á að fá til sín í sumar leikmann sem hann keypti til Liverpool á sínum tíma.

Adam Lallana verður samningslaus eftir þetta keppnistímabil og talið er fullvíst að hann yfirgefi Liverpool eftir sex ára dvöl en Rodgers, þáverandi stjóri félagsins, keypti hann af Southampton sumarið 2014 fyrir 25 milljónir punda.

„Adam er frábær leikmaður sem ég fékk til Liverpool. Ég hef vitað hvað hann gæti frá því hann var ungur strákur hjá Southampton. Hann hefur staðið sig frábærlega með Liverpool og ég er viss um að hann hefur úr ýmsu að velja. En ég þarf ekkert að ræða það frekar, við töluðum um félagaskiptamál allan janúarmánuð. Ég þarf ekki að ræða frekar um sumargluggann. Það eina sem ég hef að segja til viðbótar er að hann er frábær leikmaður,“ sagði Rodgers á fréttamannafundi í gær en Leicester mætir Wolves í úrvalsdeildinni annað kvöld.

Lallana er 31 árs og hefur leikið 126 úrvalsdeildarleiki með Liverpool en tækifæri hans í byrjunarliðinu hafa verið fá síðustu misserin. Hann hefur komið við sögu í þrettán leikjum í deildinni í vetur og skorað eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert