Getum ekki neytt Salah til að spila

Mohamed Salah gæti farið á Ólympíuleikana í sumar.
Mohamed Salah gæti farið á Ólympíuleikana í sumar. AFP

Shawky Gharib, þjálfari ólympíulandsliðs Egyptalands í knattspyrnu, hefur staðfest að Mohamed Salah sé í hópnum sem knattspyrnusamband landsins hefur tilkynnt vegna Ólympíuleikanna í Tókýó í sumar.

Gharib skýrði frá því í lok janúar að hann vildi hafa Salah í liðinu í Tókýó en þar spila leikmenn 23 ára og yngri ásamt því að hvert lið má vera með þrjá eldri leikmenn.

„Við getum ekki neytt Salah til að spila með okkur. Það er í höndum hans, Liverpool og Jürgens Klopp að taka þá ákvörðun en ég hef valið hann í 50 manna hópinn. Endanlegur 18 manna hópur verður tilkynntur í júní,“ sagði Gharib við Reuters.

Samkvæmt reglum FIFA eru félög ekki skyldug til að gefa leikmenn eldri en 23 ára lausa fyrir leikana í Tókýó. Fari Salah þangað gæti hann misst af byrjun tímabilsins á Englandi sem hefst sama dag og knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna lýkur og hann yrði ekkert með Liverpool á undirbúningstímabilinu.

mbl.is