Myndi ekki vinna titla með minni félögum

Pep Guardiola á hliðarlínunni hjá Manchester City.
Pep Guardiola á hliðarlínunni hjá Manchester City. AFP

Spánverjinn Pep Guardiola segir að hann sé langt frá því að vera besti fótboltaþjálfari heims og efast um að hann myndi vinna titla með minni félögum en hann hefur starfað hjá.

Guardiola hefur verið afar sigursæll hjá þeim liðum sem hann hefur stjórnað, Barcelona, Bayern München og Manchester City og á enn möguleika á að vinna þrefalt á þessu tímabili, Meistaradeild Evrópu, enska bikarinn og deildabikarinn.

„Hvað er það að vera besti þjálfari heims? Ég hef aldrei haft á tilfinningunni að ég sé sá besti. Aldrei nokkurn tíma. Þegar ég vann sex titla í röð með Barcelona og þrefalda sigra var það aldrei mín tilfinning,“ sagði Guardiola í samtali við Sky Sports.

„Ég hef unnið titla því ég hef haft yfir einstaklega góðum leikmönnum að ráða í stórum félögum. Það er mikill fjöldi góðra knattspyrnustjóra sem hafa ekki eins góða leikmenn og eru ekki í starfi hjá stórum félögum. Ég er góður en ekki sá besti. Ef ég tæki við liði sem væri ekki með eins góðan mannskap og Manchester City myndi ég ekki vinna neitt,“ sagði Spánverjinn sem er með átta landsmeistaratitla og tvo sigra í Meistaradeild Evrópu á ferilskránni.

mbl.is