Vildi ekki spila aftur undir stjórn Klopps

Ilkay Gündogan valdi Manchester City því hann vildi ekki spila …
Ilkay Gündogan valdi Manchester City því hann vildi ekki spila hjá Jürgen Klopp. AFP

Ilkay Gündogan, miðjumaður Manchester City og þýska landsliðsins í knattspyrnu, hefur upplýst að sér hafi staðið til boða að fara til Liverpool og leika undir stjórn Jürgens Klopps, landa síns, en hann hafi ekki haft áhuga á því.

Þeir Klopp og Gündogan þekkjast afar vel því miðjumaðurinn var leikmaður Borussia Dortmund í fimm ár og fjögur þau fyrstu var Klopp knattspyrnustjóri liðsins.

„Ég vil að lífið bjóði upp á áskoranir og vil alltaf takast á við þær sjálfur þegar ég get. Mér finnst að ef ég geri það ekki og fer ekki út fyrir þægindahringinn muni ekkert breytast og ég tek engum framförum. Ég átti fjögur frábær ár með Jürgen og dái hann sem persónu og stjóra en mér fannst tímabært að breyta til,“ sagði Gündogan í viðtali við FantasyPL en hann hvarf á braut frá Dortmund árið 2016, ári eftir að Klopp hætti með liðið.

„Ég vildi skilja við Dortmund í Dortmund og ekki fara að hugsa um tímann þar með því að fara og spila aftur undir hans stjórn í nýju félagi. Það var hluti af skýringunni á því að ég vildi ekki fara til Liverpool,“ sagði Gündogan sem fór í staðinn til Manchester City og hefur þar unnið enska meistaratitilinn í tvígang. Hann er 29 ára gamall og hefur leikið 37 landsleiki fyrir Þýskaland og með Manchester City á hann að baki 147 mótsleiki, þar af 92 í úrvalsdeildinni.

mbl.is