Allegri á leið til Englands - en hvert?

Massimiliano Allegri er með glæsilega ferilskrá hjá Juventus.
Massimiliano Allegri er með glæsilega ferilskrá hjá Juventus. AFP

Massimiliano Allegri, knattspyrnustjórinn sigursæli sem hætti hjá Juventus síðasta vor, hefur þegar gert samkomulag um að taka við liði í ensku úrvalsdeildinni, samkvæmt frétt ítalska íþróttadagblaðsins Corriere dello Sport í dag.

Allegri tók sér frí frá fótboltanum eftir að hafa stýrt Juventus til fimm meistaratitla í röð á Ítalíu en nú fer hann til Englands að sögn blaðsins. Áfangastaður er ekki nefndur í fréttinni en aðeins sagt að um „stórt enskt félag“ sé að ræða.

Hann hefur áður verið orðaður við Manchester United og þar eru endalausar vangaveltur um framtíð Ole Gunnars Solskjærs, enda þótt forráðamenn félagsins haldið því statt og stöðugt fram að Norðmaðurinn fái þann tíma sem þarf til að koma félaginu í hóp fjögurra efstu liðanna á ný.

Þá eru vaxandi vangaveltur um að Pep Guardiola láti af störfum hjá Manchester City að þessu keppnistímabili loknu og Katalóninn hefur sjálfur gefið þeim byr undir báða vængi með því að segja að svo gæti farið að hann yrði rekinn ef City verður slegið út af Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Arsenal, Tottenham og Chelsea eru öll með nýráðna knattspyrnustjóra og ljóst er að ekki tekur Allegri við Liverpool af Jürgen Klopp fyrr en í fyrsta lagi árið 2024.

Allegri, sem er 52 ára gamall, stýrði sex ítölskum liðum, síðast AC Milan frá 2010 til 2014, áður en hann tók við Juventus. AC Milan varð meistari 2011 undir hans stjórn en Juventus varð fjórum sinnum bikarmeistari auk meistaratitlanna fimm og tapaði tveimur úrslitaleikjum í Meistaradeild Evrópu með Allegri við stjórnvölinn.

mbl.is