Gætu sagt mér upp ef við töpum fyrir Real Madrid

Pep Guardiola segir að það sé skemmtilegur tími núna þegar …
Pep Guardiola segir að það sé skemmtilegur tími núna þegar hann býr lið sitt undir að mæta Real Madrid. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að honum gæti verið sagt upp störfum ef lið hans tapar fyrir Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

City hefur verið afar sigursælt undir stjórn Guardiola frá því hann tók við liðinu árið 2016, unnið enska meistaratitilinn tvö ár í röð og hreppt fimm stóra titla á þessum tíma. Í Meistaradeildinni hefur liðið hins vegar aldrei náð lengra en í átta liða úrslit og þarf að takast á við stóra hindrun að þessu sinni.

„Ég vil vinna Meistaradeildina. Mig dreymir um það og nýt þess að búa liðið undir leikina við Real Madrid, sjá hvað við getum gert, og þessar tvær vikur fyrir leikina eru þær skemmtilegustu í mínu starfi þegar maður reynir að finna út hvað við þurfum að gera til að sigra.

Ef við sláum þá ekki út gæti stjórnarformaðurinn eða framkvæmdastjórinn bankað upp á og sagt: Þetta er ekki nógu gott, við viljum vinna Meistaradeildina og ég ætla að reka þig. Allt í lagi, myndi ég segja, þetta var skemmtilegur tími. Ég veit ekki hvort þetta gerist en svona lagað gerist oft og er alveg mögulegt,“ sagði Guardiola við Sky Sports en fyrri leikurinn fer fram í Madríd 26. febrúar.

Guardiola sagði að það væri ósanngjarnt að dæma knattspyrnustjóra eingöngu af titlum. „Við sendum ungu kynslóðinni, börnunum okkar, röng skilaboð, ef við teljum bara bikarana. Tímabilið er sagt hörmulegt, en ef við vinnum Meistaradeildina verður það stórkostlegt. Hvers vegna? Það er afar erfitt að vinna þessa keppni. Ef við gerum það ekki væri alveg eins hægt að segja að Manchester City hafi átt 100 misheppnuð keppnistímabil. Þetta er ekki svona. Fólk heldur að Pep og Jürgen geti unnið alla titla, fengið tvö þúsund milljónir stiga og skorað tvö þúsund milljónir marka. Stundum er þetta ekki hægt,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert