Mané og Milner gætu spilað á morgun

Sadio Mané hefur verið frá um skeið vegna meiðsla.
Sadio Mané hefur verið frá um skeið vegna meiðsla. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool telur Sadio Mané og James Milner ekki lengur í hópi þeirra sem glíma við meiðsli og þeir koma því til greina í lið hans á ný þegar það mætir Norwich í úrvalsdeildinni á morgun.

Mané og Milner meiddust báðir í janúar og hafa misst af síðustu leikjum liðsins en hafa æft með liðinu af fullum krafti eftir að það kom úr vetrarfríinu í vikunni.

Klopp sagði á fréttamannafundi sínum í dag að þeir einu sem væru meiddir í hópnum væru Xherdan Shaqiri og Nathaniel Clyne ásamt framherjanum unga Paul Glatzel sem væri að jafna sig af alvarlegum hnjámeiðslum.

Klopp vildi lítið ræða annað en næsta leik, gegn Norwich, og sló á alla umræðu um stöðu liðsins í deildinni og meistaratitilinn sem blasir við en Liverpool mætir til leiks á morgun með 22 stiga forskot á Manchester City.

„Norwich er að sjálfsögðu efst á dagskránni. Við höfum búið okkur undir leikinn síðan á mánudag og ekki talað um neitt annað. Það eina sem við getum gert er að gera þennan leik að þeim mikilvægast á ferlinum. Spila hann á laugardag og gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna. Fólk heldur að þetta verði auðvelt því það horfir bara á stigatöfluna en við vitum vel hvaða vandamál Norwich getur skapað okkur, og líka hvaða vandamál við getum skapað Norwich,“ sagði Klopp.

„Ég dáist að því hve vel Norwich fylgir sínum grundvallaratriðum. Þeir spila góðan fótbolta og eru frábærlega þjálfaðir. Mynstrin í þeirra leik sjást alls staðar á vellinum, allar hreyfingar, þetta kemur allt af æfingasvæðinu. Þeir hafa gert 95 prósentum liðanna í deildinni lífið leitt. Þeir hafa tapað stórum hluta leikjanna, þessvegna eru þeir í þessari stöðu, en ég sé Norwich sem félag mikillar samheldni,“ sagði Klopp um andstæðinga morgundagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert