Útilokar ekki ólympíuþátttöku Salah

Jürgen Klopp og Mohamed Salah á góðri stundu.
Jürgen Klopp og Mohamed Salah á góðri stundu. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool útilokar alls ekki að Mohamed Salah geti leikið með Egyptum á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.

Salah hefur verið valinn í 50 manna úrtakshóp Egypta fyrir Ólympíuleikana en hvert lið má nota þrjá leikmenn sem eru eldri en 23 ára. Þátttaka þeirra er þó háð samþykki félagsliða þeirra og þjálfari egypska liðsins sem kveðst vilja tefla Salah fram segir að leikmaðurinn sjálfur og Liverpool ráði því alfarið hvort af þessu verði.

„Vil ég missa leikmann á undirbúningstímabilinu? Auðvitað ekki. En við verðum að taka tillit til ýmissa þátta. Við þurfum meiri upplýsingar. Hvernig verður þetta? Hvenær hefst undirbúningurinn? Enginn hefur haft samband við okkur enn sem komið er. Við höfum því ekki tekið neina ákvörðun en við sjáum til," sagði Klopp um málið á fréttamannafundi sínum sem nú stendur yfir vegna leiks Liverpool gegn Norwich í úrvalsdeildinni á morgun.

mbl.is