Klopp settur inn í glerbúr

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er settur a.m.k. þrisvar í viku inn í glerbúr á æfingasvæði Englandsmeistaraefnanna, Melwood, til að spila tilbrigði við tennis. Aðstoðarþjálfari hans, Hollendingurinn Pepijn Lijnders, ljóstrar þessu upp í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

„Þetta er blanda af tennis og skvassi og út af glerbúrinu er boltinn alltaf í leik. Völlurinn er gerður fyrir tvo gegn tveimur og maður glímir ekki aðeins við andstæðinginn, heldur líka við sjálfan sig.“

Upphaflega stóð til að reisa völlinn við heimili þeirra en þeir bjuggu á þeim tíma nálægt hvor öðrum en þeim þótti betra að hafa hann á æfingasvæðinu. „Þetta er geggjað. Við leikum að jafnaði tvisvar eða þrisvar í viku, stundum oftar,“ segir Lijnders.

Þessir æsispennandi leikir eru kærkomin hvíld frá amstri dagsins. „Að grípa í spaðann milli funda og æfinga er frábær leið til að slaka á. Hægt er að spila þennan leik án 100% einbeitingar. Best er að hugsa um alls ekki neitt á meðan við spilum; við slíkar aðstæður fær maður stundum hugmynd að frábærum lausnum á tilteknum vanda.“

Lijnders fer um víðan völl í ítarlegu viðtalinu og ræðir meðal annars um hugmyndafræði Liverpool, æfingarútínu liðsins og samstarfið við Klopp. 

„Jürgen [Klopp] er leiðtogi og andlit liðsins, maðurinn sem mótar karakter liðsins og hvetur alla til dáða. Hann er líka framsækinn og stöðugt að huga að næsta skrefi og hvernig við getum bætt okkur. Pete [Peter Krawietz] ber ábyrgð á greiningunni og undirbýr allt sem snýr að myndböndunum sem við sýnum leikmönnunum. Sjálfur er ég ábyrgur fyrir þjálfunarferlinu. Í sameiningu ákveðum við hvaða þætti í leik liðsins við viljum þróa og í framhaldinu útfæri ég æfingarnar. Þetta er í raun alls ekki flókið; hverfist um að hvetja leikmennina, andlega og líkamlega, til þess að vinna boltann hratt og örugglega og eins framarlega á vellinum og hægt er. Að þessu grunnatriði komum við aftur og aftur á æfingum. Við þjálfararnir erum stöðugt að leita leiða til að láta leikmennina bregðast hratt við og gera þá meira skapandi.“

Pepijn Lijnders og Mohamed Salah fagna enn einum sigrinum í …
Pepijn Lijnders og Mohamed Salah fagna enn einum sigrinum í vetur. AFP


Hjarta liðsins er hjarta þjálfarans

Lijnders hefur tröllatrú á fyrirmyndum og að knattspyrnustjórinn og fyrirliðarnir endurspegli félagið. „Hjarta liðsins er hjarta þjálfarans. Þannig að karakter þjálfarans verður karakter liðsins til lengri tíma litið. Þannig er það vegna þess að ekkert vopn er sterkara en þitt eigið fordæmi. Sé ég agaður þjálfari þarf ég ekki að aga leikmennina. Fyrirliðarnir okkar Hendo [Jordan Henderson] og Milly, ásamt Virgil [van Dijk] eru mjög agaðir sem aftur þýðir að ekki þarf að aga hópinn í heild. Til er gamalt spakmæli eignað Theodore Roosevelt: „Öllum er sama hvað þú veist þangað til þeir vita hversu miklu máli það skiptir þig.“ Jürgen þykir mjög vænt um leikmannahópinn og starfsmennina í kringum hann og leikmenn drekka mun meira af speki manns í sig þegar þeir finna hversu kærir þeir eru manni. Þannig að þetta snýst fyrst og síðast um sambandið milli þjálfarans og liðsins.“

Nánar er rætt við Pepjin Lijnders í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »