Mark beint úr hornspyrnu og þrumufleygur

Stuart Armstrong eltir Charlie Taylor á St. Mary's-leikvanginum í dag.
Stuart Armstrong eltir Charlie Taylor á St. Mary's-leikvanginum í dag. AFP

Burnley vann 2:1-sigur á Southampton á útivelli í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en bæði mörk gestanna voru ótrúleg, hvort á sinn hátt.

Ísinn var brotinn strax eftir 90 sekúndna leik þegar Ashley Westwood skoraði beint úr hornspyrnu. Hann sneri boltann að nærstönginni og Danny Ings, leikmaður Southampton, lét boltann fara einhverra hluta vegna. Vindurinn greip þar næst í knöttinn og dró hann fram hjá Alex McCarthy sem kom engum vörnum við í markinu.

Ings bætti fyrir mistökin á 18. mínútu þegar hann jafnaði metin með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið en þetta var hans fimmtánda deildarmark á tímabilinu. Gestirnir áttu þó eftir að eiga síðasta orðið er Matej Vydra skoraði sigurmark á 60. mínútu með sannkölluðum þrumufleyg. Hann fékk boltann við vítateigslínuna, lagði boltann fyrir sig og skoraði fram hjá McCarthy með bylmingsskoti.

Með sigrinum fer Burnley upp í 10. sætið og er nú með 34 stig en Southampton er í 13. sæti með 31 stig. Einn annar leikur er á dagskrá í úrvalsdeildinni í dag er topplið Liverpool heimsækir botnlið Norwich.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert