Figo ánægður með kaup Manchester United

Bruno Fernandes lék sinn fyrsta leik með United gegn Wolves …
Bruno Fernandes lék sinn fyrsta leik með United gegn Wolves í síðustu umferð. AFP

Portúgalska knattspyrnugoðsögnin Luis Figo segir að Manchester United hafi gert vel í að festa kaup á landa sínum Bruno Fernandes frá Sporting í síðasta mánuði. Fernandes skrifaði undir fimm og hálfs árs samning við United en kaupverðið var í kringum 46,6 milljónir punda.

Það gæti hækkað upp í allt að 68 milljónir punda. „Í nútíma fótbolta er erfitt að finna góða leikmenn því allir eru að leita að því sama. Það eru ekki eins margir hæfileikaríkir leikmenn nú og áður,“ sagði Figo við Sky Sports, áður en hann hrósaði Fernandes. 

„Hann er einn besti knattspyrnumaður Portúgals. Hann spilar með landsliðinu og getur skorað mörk frá miðsvæðinu. Það var vel gert hjá United að kaupa hann og vonandi nær hann að aðlagast sem fyrst,“ sagði Figo, sem á sínum tíma var einn besti knattspyrnumaður heims. 

mbl.is