Guardiola sagður halda áfram þrátt fyrir bann

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola ætlar að halda áfram sem knattspyrnustjóri Manchester City, enda þótt tveggja ára keppnisbanni félagsins frá Meistaradeild Evrópu yrði ekki haggað.

BBC skýrir frá þessu og vitnar til þess að Guardiola hafi sagt þetta í sínum vinahópi. Samningur hans gildir  til sumarsins 2021 en er uppsegjanlegur að þessu keppnistímabili loknu. Talið var líklegt að hann myndi nýta sér það ákvæði.

Manchester City hefur áfrýjað úrskurði UEFA til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS. 

Þá hafa enskir fjölmiðlar skýrt frá því að margir leikmenn City, þar á meðal Raheem Sterling, hafi tilkynnt að þeir muni leika áfram með liðinu þótt bannið stæði. Talsverð umræða hefur verið um að Guardiola muni hverfa á braut frá félaginu ásamt stórum hluta leikmannahópsins í kjölfar dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert