United galopnaði Meistaradeildarbaráttuna á Brúnni

Leikmenn Manchester United fagna Anthony Martial eftir að hann kom …
Leikmenn Manchester United fagna Anthony Martial eftir að hann kom þeim yfir í kvöld. AFP

Manchester United galopnaði baráttuna um sæti í Meistaradeild Evrópu með góðum útisigri á Chelsea, 2:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Stamford Bridge í kvöld.

Manchester United komst með sigrinum upp í 7. sæti deildarinnar, fór upp fyrir Wolves og Everton og er með 38 stig, aðeins þremur stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sætinu með 41 stig.

Tvö mörk voru dæmd af Chelsea í síðari hálfleiknum með myndbandadómgæslu.

Fyrri hálfleikurinn var hraður og líflegur, Chelsea heldur sterkari aðilinn en lítið var um opið færi. Manchester United náði forystunni á lokamínútu hálfleiksins þegar Anthony Martial skoraði með laglegum skalla eftir fyrirgjöf Aaron Wan-Bissaka frá hægri, 0:1.

Chelsea missti N'Golo Kanté meiddan af velli strax á 11. mínútu og danski miðvörðurinn Anders Christensen varð að hætta leik í hálfleik eftir að hafa fengið þungt högg á nefið undir lok fyrri hálfleiks.

Chelsea virtist hafa jafnað á 55. mínútu þegar Kurt Zouma skoraði eftir hornspyrnu en eftir myndbandsskoðun var markið dæmt af vegna brots.

Bruno Fernandes átti hörkuskot í stöngina á marki Chelsea úr aukaspyrnu á hægra vítateigshorninu á 64. mínútu.

Þetta var hörð viðvörun frá United því á 66. mínútu skoraði fyrirliðinn Harry Maguire með föstum skalla eftir hornspyrnu Fernandes frá vinstri, 0:2.

Chelsea skoraði aftur á 78. mínútu, Olivier Giroud með skalla eftir fyrirgjöf Mason Mount, en í ljós kom að hann var rangstæður og annað mark dæmt af Lundúnaliðinu með myndbandadómgæslu.

Mason Mount var hársbreidd frá því að minnka muninn fyrir Chelsea á 89. mínútu þegar hann átti hörkuskot í stöng úr aukaspyrnu.

Engu munaði að Odion Ighalo skoraði í fyrsta leik sínum með Manchester United. Hann kom inn á þegar uppbótartíminn var að hefjast og fékk dauðafæri, komst einn gegn Willy Caballero sem varði vel frá honum með úthlaupi.

Chelsea 0:2 Man. Utd opna loka
90. mín. Odion Ighalo (Man. Utd) kemur inn á Fyrstu mínúturnar sem hann fær fyrir Manchester United
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert