Fengu fimmtán mínútna umhugsunarfrest

Joshua King var nálægt því að fara aftur til Manchester …
Joshua King var nálægt því að fara aftur til Manchester United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Bournemouth fékk fimmtán mínútna umhugsunarfrest að kvöldi 31. janúar þegar Manchester United bauðst til að greiða félaginu 25 milljónir punda fyrir norska framherjann Joshua King.

Netmiðillinn The Athletic greinir frá þessu í dag og segir að Ed Woodward, framkvæmdastjóri United, hafi gert kollega sínum Neill Blake hjá Bournemouth tvö tilboð í Norðmanninn þennan dag sem var lokadagur janúargluggans í félagaskiptunum á Englandi.

Sagt er að Woodward hafi gefið Blake fimmtán mínútur til að svara lokatilboði sínu, annars myndi félagið sækja leikmann til Kína.

Þessar fimmtán mínútur hafi síðan liðið án þess að Blake hafi svarað Woodward, og í staðinn var nígeríski framherjinn Odion Ighalo sóttur sem lánsmaður frá Shanghai Shenhua í Kína rétt áður en lokað var fyrir félagaskiptin.

King, sem áður fór 16 ára gamall frá Noregi til Manchester United, sagði fyrr í þessum mánuði að hann gæti ekki svarað því hversu nálægt hann hefði verið því að fara til félagsins á nýjan leik. „Ég hafði trú á að það myndi eitthvað gerast og þetta var tilfinningaríkt fyrir mig, þar sem ég fór 16 ára gamall til Englands til að láta draum minn rætast og vildi að hann myndi rætast hjá Manchester United,“ sagði King.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert