Klopp hefur skapað öðruvísi stórlið

Diego Simeone á fréttamannafundinum í gær.
Diego Simeone á fréttamannafundinum í gær. AFP

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético Madrid, segir að Jürgen Klopp, kollegi hans og andstæðingur í Meistaradeild Evrópu í kvöld, sé  búinn að skapa lið hjá Liverpool sem komið sé á spjöld sögunnar og sé öðruvísi en önnur stórlið í fótboltasögunni.

„Við höfum talað um ýmis stórlið í gegnum tíðina og ég er ekki í vafa um að þetta Liverpool-lið fer í sögubækurnar sem stórlið, vegna þess að það er öðruvísi en önnur lið sem við höfum dáðst að í gegnum tíðina,“ sagði Simeone á fréttamannafundi fyrir leik Atlético og Liverpool.

„Þetta lið er mikið ákafara og með meiri aðlögunarhæfni en við höfum áður séð og sem mótherji þá dáist ég að því. Við mætum stórkostlegu liði sem er vel þjálfað af manni sem er öðruvísi en aðrir og hefur gefið liði sínu öðruvísi möguleika.

Þeir geta beitt skyndisóknum, þeir geta haldið boltanum og þeir eru gríðarlega sterkir í loftinu. Hann hefur unnið að því að móta þetta lið í fjögur ár og hann er enn að bæta það þó hann hafi misst mann á borð við Philippe Coutinho.

Þegar hann fór hefði mátt halda að liðið myndi flosna upp, en þvert á móti er það orðið enn sterkara. Það segir sitt um þá leikmenn sem eru núna í liðinu,“ sagði Simeone.

Viðureign Atlético og Liverpool fer fram á Wanda Metropolitano leikvanginum í Madríd klukkan 20 í kvöld.

mbl.is