Mikið áfall fyrir Tottenham

Heung-min Son fagnar sigurmarki sínu gegn Aston Villa um helgina …
Heung-min Son fagnar sigurmarki sínu gegn Aston Villa um helgina en það skoraði hann með brákaðan handlegg. AFP

Suðurkóreski knattspyrnumaðurinn Heung-min Son verður ekki með Tottenham í næstu leikjum, hvorki í ensku úrvalsdeildinni né Meistaradeild Evrópu, þar sem hann þarf að gangast undir aðgerð í þessari viku.

Tottenham skýrði frá þessu á vef sínum í dag en þar kemur fram að Son hafi brákast á handlegg í sigurleiknum gegn Aston Villa. Það hefur væntanlega verið þegar hann skoraði fyrra mark sitt í 3:2 sigrinum, fylgdi á eftir þegar Pepe Reina varði frá honum vítaspyrnu, en í kjölfarið sást að Son hélt um handlegginn.

Á vef Tottenham segir að endurhæfing hans verði skoðuð nánar eftir aðgerðina en reiknað sé með að hann verði frá keppni í nokkrar vikur.

Þetta er mikið áfall fyrir Tottenham enda hefur Son verið einn besti leikmaður liðsins í vetur og skorað 9 mörk í 21 leik þess í úrvalsdeildinni. Tottenham mætir RB Leipzig í fyrri viðureign liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld og þar verður suðurkóreski sóknarmaðurinn einnig fjarri góðu gamni.

mbl.is