Reyndi að hindra markið með brotið nef

Andreas Christensen fær olnbogann á Anthony Martial í andlitið í …
Andreas Christensen fær olnbogann á Anthony Martial í andlitið í leiknum í gærkvöld og þarna nefbrotnaði hann. AFP

Danski miðvörðurinn Andreas Christensen hjá Chelsea var nefbrotinn þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að Anthony Martial kæmi Manchester United yfir á lokamínútum fyrri hálfleiksins í viðureign liðanna á Stamford Bridge í gærkvöld.

Frank Lampard knattspyrnustjóri Chelsea skýrði frá þessu eftir leikinn en fjórum mínútum áður en Martial skoraði fékk Christensen þungt högg frá Frakkanum í návígi þeirra og þurfti aðhlynningu í smástund. Hann hélt áfram en á 45. mínútu hafði Martial betur í skallaeinvígi við Danann og skoraði fyrir United. Christensen var síðan skipt af velli í hálfleik.

„Hann var búinn að vera mjög sterkur gegn Martial, vann boltann oft og var yfirvegaður eins og alltaf, svo ég get horft í gegnum fingur mér við hann út af þessu marki því hann var með brotið nef,“ sagði Lampard við fréttamenn.

Chelsea missti líka N'Golo Kanté af velli snemma leiks vegna meiðsla og Lampard sagði að um tognun væri að ræða sem ætti eftir að skoða betur en útlitið væri ekki gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert