Tekinn í frægðarhöllina 22 árum eftir andlátið

Justin Fashanu sló í gegn með Norwich á sínum tíma …
Justin Fashanu sló í gegn með Norwich á sínum tíma og skoraði 133 mörk í 365 deildaleikjum á sínum ferli.

Justin Fashanu verður formlega tekinn inn í frægðarhöll enska fótboltans á þjóðarknattspyrnusafni Englands í Manchester síðar í þessari viku, 22 árum eftir andlát sitt, en hann varð fyrstur enskra knattspyrnumanna til að opinbera samkynhneigð sína, og sá eini til þessa.

Fashanu, sem lék meðal annars með Norwich og Nottingham Forest og var fyrsti blökkumaðurinn sem var seldur á eina milljón punda, framdi sjálfsvíg árið 1998, þá 37 ára gamall, átta árum eftir að hann kom út úr skápnum.

Um eitt hundrað knattspyrnumenn eru í frægðarhöllinni, sem var sett á laggirnar árið 2002 til þess að heiðra þá sem hafa átt einstakan feril í íþróttinni.

Amal, systurdóttir hans, sem stjórnar Justin Fashanu-stofnuninni þar sem vakin er athygli á samkynhneigð og öðrum þáttum sem valda misrétti í knattspyrnunni, tekur við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

„Ég held að þetta hefði verið stór stund fyrir Justin og þetta verður mikill áfangi þegar við loksins viðurkennum hver Justin Fashanu var, ekki bara knattspyrnumaður sem kom út úr skápnum, heldur einnig afar hæfileikaríkur fótboltamaður og fyrsti milljón punda blökkumaðurinn á Englandi,“ sagði Amal við Sky Sports.

Fashanu lék ellefu landsleiki fyrir Englands hönd á árunum 1980 til 1982 og skoraði í þeim 5 mörk. Auk Norwich og Forest sem hann lék með á bestu árum sínum, spilaði hann með Southampton, Notts County, Brighton, Manchester City, West Ham, Leyton Orient og Torquay, og með liðum í Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada, Skotlandi, Svíþjóð og síðast á Nýja-Sjálandi ári áður en hann lést.

mbl.is