United tryggði Liverpool sæti í Meistaradeildinni

Leikmenn Liverpool röltu um Wanda Metropolitano-leikvanginn í Madríd í gærkvöld …
Leikmenn Liverpool röltu um Wanda Metropolitano-leikvanginn í Madríd í gærkvöld en þar mæta þeir Atlético í kvöld. AFP

Með sigri sínum gegn Chelsea á Stamford Bridge í gærkvöld, 2:0, gulltryggði Manchester United erkifjendum sínum í Liverpool sæti í Meistaradeild Evrópu í fótbolta keppnistímabilið 2020-2021.

Stigatap Chelsea í leiknum þýðir að Liverpool getur ekki lengur endað neðar en í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þótt liðið myndi tapa öllum þeim tólf leikjum sem það á eftir að spila á tímabilinu.

Liverpool er 35 stigum á undan Chelsea og 36 stigum á undan Tottenham og þar sem Chelsea og Tottenham mætast um næstu helgi gætu aldrei bæði komist upp fyrir Liverpool á töflunni.

Liverpool er þar með fyrst allra liða í Evrópu búið að tryggja sér Meistaradeildarsæti á næsta keppnistímabili. Liðið mætir Atlético Madrid í kvöld í fyrri viðureign liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Madríd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert