Ómögulegur bolti og vont veður en mikilvægt mark

Juan Mata og fleiri fylgjast með boltanum í leiknum í …
Juan Mata og fleiri fylgjast með boltanum í leiknum í Brugge í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var ósáttur við margt varðandi leikinn gegn Club Brugge í Evrópudeildinni í Belgíu í kvöld en var tiltölulega sáttur við úrslitin, 1:1.

Anthony Martial jafnaði metin fyrir United á 36. mínútu eftir að Belgarnir höfðu komist yfir snemma í leiknum. Þetta var fyrri viðureign liðanna í 32ja liða úrslitunum og þau mætast aftur á Old Trafford næsta fimmtudag.

„Ég held að þetta hafi ekki verið einn af betri leikjum sem fólk hefur séð. Þetta var erfiður leikur gegn vel skipulögðu liði við erfiðar aðstæður. Við skoruðum á útivelli, gerðum jafntefli, og vonumst til að geta klárað dæmið á heimavelli,“ sagði Solskjær við BBC en leikið var í ausandi rigningu og roki.

Þá var Solskjær afar óhress með þá tegund af boltum sem notuð er í Evrópudeildinni. 

„Þú getur spurt hvaða leikmann sem er, þessi bolti hjálpar engum að spila góðan fótbolta. Hann er bara öðruvísi og erfiður viðureignar. Þú getur fengið einn og prófað! En þetta bitnar að sjálfsögðu jafnt á  báðum liðunum. En þetta voru ekki skemmtilegar aðstæður, rokið og rigningin,“ sagði Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert