Lampard mætir gamla læriföðurnum

Chelsea tekur á móti Tottenham í einum af stórleikjum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Stamford Bridge í London á morgun. Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar með 41 stig en Tottenham er í fimmta sætinu með 40 stig.

Það er því afar mikið undir á Brúnni á laugardaginn því baráttan um fjórða og síðasta Meistaradeildarsætið hefur sjaldan verið jafn hörð. Þá er José Mourinho, stjóri Tottenham, að mæta aftur á sinn gamla heimavöll.

Frank Lampard, stjóri Chelsea, spilaði undir Mourinho hjá Chelsea í fjögur ár, frá 2004 til 2007 og svo aftur árið 2013. Saman urðu þeir Englandsmeistarar hjá Chelsea og gerir það viðureign liðanna á morgun ennþá áhugaverðari.

mbl.is