Lykilmaður nálgast endurkomu

Scott McTominay spilaði síðast með Manchester United 26. desember.
Scott McTominay spilaði síðast með Manchester United 26. desember. AFP

Scott McTominay, miðjumaður Manchester United, gæti snúið aftur á knattspyrnuvöllinn um næstu helgi þegar United heimsækir Watford en þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, á blaðamannafundi í morgun.

McTominay hefur ekkert spilað með United síðan 26. desember síðastliðinn þegar hann meiddist á hné í 4:1-sigri United gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni. Skotinn hefur byrjað sautján leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skorað þrjú mörk.

Hann er einungis 23 ára gamall en hefur þrátt fyrir það leikið stórt hlutverk með liðinu á tímabilinu í fjarveru Paul Pogba. United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.

mbl.is