Veðjar á Liverpool

Jadon Sancho er einn sá eftirsóttasti á leikmannamarkaðnum í dag.
Jadon Sancho er einn sá eftirsóttasti á leikmannamarkaðnum í dag. AFP

Kaveh Solhekol, fréttamaður hjá Sky Sports, telur að Jadon Sancho, sóknarmaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, muni ganga til liðs við Liverpool næsta sumar. Sancho er á meðal eftirsóttustu leikmanna heims en hann er einungis 19 ára gamall og hefur skoraði 13 mörk og lagt upp önnur þrettán í 19 byrjunarliðsleikjum í þýsku 1. deildinni á tímabilnu.

„Það er erfitt að spá fyrir um það hvar Jadon Sancho mun spila á næstu leiktíð því það eru svo mörg félög sem vilja fá hann,“ skrifaði Solhekol í vikulegan pistil sinn á SkySports.com. „Ef ég væri hins vegar maður veðmála myndi ég setja peninginn á að Sancho færi til Liverpool enda eitt af skotmörkum Jürgen Klopp fyrir sumarið.“

„Sancho myndi eiga mjög erfitt með að hafna Liverpool enda félag sem er að berjast um sigur í bæði ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni. Manchester United telur sig einnig geta fengið leikmanninn en þeir verða að tryggja sæti sitt í Meistaradeildinni fyrst.  Þá hefur United ekki Klopp sem knattspyrnustjóra og það gæti skipt sköpum.“

„Ef Sancho fer til Liverpool er hann að ganga til liðs við félag sem mun að öllum líkindum verða eitt sigursælasta lið Englands á næstu árum. Leikmaðurinn mun taka lokaákvörðun næsta sumar en Borussia Dortmund er tilbúið að leyfa honum að fara í sumar fyrir 120 milljónir punda,“ bætti Solhekol við.

mbl.is