Gylfi átti þátt í tveimur mörkum í tapi

Gylfi Þór Sigurðsson fylgist með baráttunni í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson fylgist með baráttunni í dag. AFP

Arsenal hafði betur gegn Everton, 3:2, í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Með sigrinum fór Arsenal upp í 37 stig, upp fyrir Everton og Burnley, og upp í níunda sætið. Everton er í ellefta með 36 stig. 

Það tók Everton aðeins rúmar 50 sekúndur að skora fyrsta markið og það var af dýrari gerðinni. Gylfi Þór Sigurðsson sendi boltann inn í teig Arsenal-manna og þaðan fór hann á David Luiz og Dominic Calvert-Lewin sem afgreiddi boltann glæsilega í markið með hjólhestaspyrnu. 

Arsenal jafnaði metin á 27. mínútu er Eddie Nketiah kláraði snyrtilega eftir fyrirgjöf Bukayo Saka og sex mínútum síðar skoraði Pierre-Emerick Aubameyang eftir glæsilega sendingu frá David Luiz. 

Everton átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleiknum því Richarlison jafnaði í 2:2 í uppbótartíma. Hann kláraði þá af stuttu færi í kjölfar þess að Gylfi setti boltann inn í teiginn. 

Aðeins 20 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Aubameyang skoraði sitt annað mark, þriðja mark Arsenal og sigurmarkið. Nicolas Pépé sendi þá fyrir markið og framherjinn skoraði með fallegum skalla. 

Everton fékk tvö mjög fín færi til þess að jafna, en Berndt Leno í marki Arsenal átti góðan leik og kom í veg fyrir það og Arsenal gat fagnað sínum öðrum leik í röð. 

Arsenal 3:2 Everton opna loka
90. mín. Dominic Calvert-Lewin (Everton) á skalla sem fer framhjá Færi! Calvert-Lewin skallar hárfínt framhjá eftir fyrirgjöf frá Bernard. Þarna var Everton nálægt því að jafna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert