City nýtur ekki sömu virðingar og Liverpool

Raheem Sterling var valinn leikmaður ársins á Englandi af blaðamönnum …
Raheem Sterling var valinn leikmaður ársins á Englandi af blaðamönnum á síðustu leiktíð. AFP

Raheem Sterling, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, segir að félagið njóti ekki sömu virðingar og Liverpool í knattspyrnuheiminum. Þrátt fyrir að City hafi unnið þrefalt á Englandi á síðustu leiktíð var Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, valinn leikmaður ársins á Englandi af leikmönnum deildarinnar.

Þrátt fyrir að City hafi unnið ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum frá árinu 2012 hefur leikmaður City aldrei verið valinn bestur í leikmannakjöri deildarinnar. Tímabilið 2017-18, þegar City vann deildina í fyrsta sinn undir stjórn Pep Guardiola, var Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool, valinn bestur en Liverpool endaði það tímabili í fjórða sæti deildarinnar.

„Það er í raun ótrúlegt að liðið hafi unnið þrennuna á Englandi á síðustu leiktíð en þrátt fyrir það var enginn leikmaður liðsins valinn PFA-leikmaður ársins,“ sagði Sterling í samtali við AS. „Leikmaður Liverpool hlaut nafnbótina sem var vel því Liverpool átti frábært tímabil en þegar maður skoðar hverjir hafa unnið verðlaunin í gegnum tíðina vakna upp spurningar.

Yaya Touré sem dæmi skoraði tuttugu mörk eitt tímabilið sem er ótrúleg tölfræði fyrir leikmann sem spilar á miðjunni. Það dugði hins vegar ekki til þess að vera kosinn leikmaður ársins. Sergio Agüero er annar leikmaður sem hefur raðað inn mörkum á Englandi, undanfarin sjö ár, en þrátt fyrir það hefur hann aldrei unnið.

Það segir manni ýmislegt að leikmaður City hefur aldrei unnið verðlaunin og maður spyr sig hvort félagið njóti sömu virðingar hjá öðrum leikmönnum og félögum. Við höfum nánast unnið stóran titil á hverju ári á undanförnum árum en það dugar ekki. Við munum hins vegar ekki gefast upp og við höldum áfram,“ bætti Sterling við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert