Ég trúi þessu varla

Jürgen Klopp fagnar sigrinum í kvöld.
Jürgen Klopp fagnar sigrinum í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var kátur í viðtali við Sky Sports eftir 3:2-sigur á West Ham í skemmtilegum leik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. West Ham komst í 2:1 í seinni hálfleik, en Liverpool svaraði með tveimur mörkum og náði í stigin þrjú. 

„Ég var ánægður með byrjunina og við skoruðum fallegt fyrsta mark. Eftir það vorum við ekki góðir í baráttunni um seinni boltann og West Ham komst betur inn í leikinn. Þegar þeir skora seinna markið þurftum við að vera rólegir og gera réttu hlutina, mér fannst við gera það,“ sagði Klopp sem fannst mark, sem dæmt var af, það fallegasta í leiknum. 

„Það voru skrítin mörk í þessum leik og það besta stóð ekki því Mané var í rangstöðu. Þú getur ekki alltaf spilað vel, en okkur tókst að vinna þrátt fyrir það. Að vinna úrslitaleik Meistaradeildarinnar hjálpaði okkur mikið og við höfum náð að halda áfram að vinna. Það var versta frammistaða sem ég hef séð hjá mínu liði í úrslitaleik en við unnum samt.“

Sigurinn var sá átjándi í röð í deildinni, sem er jöfnun á meti sem Manchester City setti fyrir tveimur árum. „Ég hélt þetta met yrði aldrei jafnað eða bætt. Ég trúi þessu varla,“ sagði Þjóðverjinn kátur. 

mbl.is