Fólkið sem baular á mig er slæmt fólk

Antonio Rüdiger í leik með Chelsea.
Antonio Rüdiger í leik með Chelsea. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Antonio Rüdiger segir að rasisminn hafi farið með sigur af hólmi þegar engum var refsað eftir leik Chelsea og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á heimavelli Tottenham í desember. 

Rüdiger kvartaði yfir kynþáttaníði frá stuðningsmönnum Tottenham meðan á leik stóð en eftir stutta rannsókn var ákveðið að málið yrði fellt niður, þar sem ekki væru næg sönnunargögn. Stuðningsmenn Tottenham bauluðu svo á Rüdiger er liðin mættust aftur í ensku deildinni á laugardag. 

„Þetta er sorglegt,“ sagði Rüdiger í samtali við Guardian. Fólk sem baular á mig út af þessu er slæmt fólk. Fólk sem hagar sér svona á við stór vandamál að stríða. Ég þarf að sætta mig við þetta, en að mínu mati var það rasisminn sem vann,“ bætti Þjóðverjinn ósáttur við. 

„Það kom mér ekki á óvart að engum var refsað. Þeir sleppa nánast alltaf. Ég fékk sem betur fer stuðning frá mínu félagi, en það var ekki nóg. Ef við stöndum ekki saman gegn rasisma mun hann vinna aftur og aftur,“ sagði Rüdiger. 

mbl.is