Gæti reynst erfitt að halda van Dijk

Virgil van Dijk hefur verið besti varnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin …
Virgil van Dijk hefur verið besti varnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár. AFP

Paul Ince, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, telur að það gæti reynst erfitt fyrir félagið að halda öllum sínum bestu leikmönnum á næstu árum. Liverpool hefur verið með mikla yfirburði í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en liðið er með 19 stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar þegar ellefu umferðir eru eftir af deildinni.

Ince, sem lék með Liverpool á árunum 1997 til ársins 1999, telur að Virgil van Dijk, hollenski miðvörður Liverpool, sé sá leikmaður sem félagið gæti lent í einna mestu vandræðum með að halda. „Það sem félagið og Klopp eru að gera er magnað en frábær lið þurfa að skila stórum titlum í hús á hverju einasta ári,“ sagði Ince í samtali við Liverpool Echo.

„Það er erfitt að ætla að fara að bera þetta Liverpool-lið saman við önnur sigursæl ensk félög. Við þurfum fyrst að bíða og sjá hvernig liðinu gengur að stækka bikarasafn sitt. Þetta snýst líka um það hvort liðið getur haldið öllum sínum bestu leikmönnum hjá félaginu á næstu árum því Barcelona og Real Madrid eru alltaf áhugasöm um bestu leikmennina.“

„Hvað myndu Liverpool og Virgil van Dijk gera sem dæmi ef Barcelona eða Real Madrid kæmi með tilboð? Það er staðreynd að leikmenn eiga erfitt með að segja nei við spænsku risana og Liverpool gæti lent í vandræðum ef þessi tvö stóru félög vilja fá leikmenn frá Bítlaborginni,“ bætti Ince við en hann er orðinn 52 ára gamall.

mbl.is