Gerði tvenn stór mistök um helgina

Það var sami VAR-dómari í leik Chelsea - Tottenham og …
Það var sami VAR-dómari í leik Chelsea - Tottenham og Leicester - Manchester City. AFP

Knattspyrnudómarinn David Coote vill eflaust gleyma nýliðinni helgi sem allra fyrst en hann var mikið á milli tannanna á knattspyrnuáhugamönnum eftir tvenn stór mistök um helgina. Coote var VAR-dómari í leik Chelsea og Tottenham á Stamford Bridge á laugardaginn og svo aftur í leik Leicester og Manchester City sem fram fór í Leicester, síðdegis á laugardag.

Í leik Chelsea og Tottenham átti Giovanni lo Celso, miðjumaður Tottenham, að fá beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á César Azpilicueta. Lo Celso fékk hins vegar ekki einu sinni að líta gula spjaldið eftir að Coote hafði skoðað atvikið fram og til baka en enska úrvalsdeildin hefur nú þegar beðist afsökunar á því að rauða spjaldið hafi ekki farið á loft.

Þá gerði Coote einnig stór mistök í leik Leicester og City en í fyrri hálfleik handlék leikmaður City boltann innan teigs og var ekkert dæmt. Í síðari hálfleik átti svipað atvik sér stað þegar Denn­is Pra­et, leikmaður Leicester, handlék knöttinn innan teigs og þá var vítaspyrna dæmd við lítinn fögnuð Leicester-manna.

„Það er of mikið fyrir einn dómara að dæma tvo leiki á sama deginum,“ sagði Mark Halsey, fyrrverandi dómari, í samtali við enska fjölmiðla. „Það er mikil mannekla í gangi en menn verða þreyttir á því að hanga fyrir framan sjónvarpsskjáinn heilu klukkustundirnar. Dómarar ættu ekki að taka tvo leiki á sama deginum,“ bætti Halsey við.

mbl.is