Liverpool lenti undir en slapp með skrekkinn á Anfield

Sadio Mané og Trent Alexander-Arnold fagna sigurmarki Mané í kvöld.
Sadio Mané og Trent Alexander-Arnold fagna sigurmarki Mané í kvöld. AFP

Liverpool er á ný komið með 22 stiga forskot í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir sigur á West Ham, 3:2, í bráðfjörugum leik á Anfield í kvöld þar sem Lundúnaliðið komst óvænt yfir í síðari hálfleiknum.

Þetta er átjándi sigurleikur Liverpool í röð í deildinni og liðið jafnaði þar með met Manchester City í fjölda sigurleikja í röð. Þá hefur Liverpool nú leikið 44 deildarleiki í röð án taps og færist hægt og bítandi nær meti Arsenal sem lék 49 leiki í röð án þess að tapa.

Liverpool er nú komið með 79 stig af 81 mögulegu eftir 27 umferðir og þarf tólf stig enn í síðustu ellefu leikjunum til að gulltryggja sér enska meistaratitilinn.

West Ham situr áfram í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 24 stig en hefði alveg verðskuldað eitthvað út úr leiknum eftir mjög góða frammistöðu.

Liverpool náði forystunni strax á 9. mínútu þegar Georginio Wijnaldum skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Trents Alexanders-Arnolds frá hægri, 1:0.

West Ham var aðeins þrjár mínútur að jafna því á 12. mínútu skoraði Issa Diop með skalla eftir hornspyrnu frá Robert Snodgrass, 1:1.

Michail Antonio brunar fram hjá Fabinho í leiknum á Anfield …
Michail Antonio brunar fram hjá Fabinho í leiknum á Anfield í kvöld. AFP


West Ham náði síðan forystunni á 55. mínútu þegar Pablo Fornals, nýkominn inn á sem varamaður, skoraði með viðstöðulausu skoti úr miðjum vítateig eftir sendingu Declan Rice frá hægri, 1:2.

Mohamed Salah jafnaði metin á 68. mínútu þegar hann fékk boltann frá Andrew Robertson í miðjum vítateig og skaut beint á Fabianski markvörð sem missti boltann undir sig og í netið, 2:2.

Liverpool komst síðan yfir á 81. mínútu. Trent Alexander-Arnold fékk boltann við hægri endamörkin, inn við markteig, lyfti honum yfir Fabianski markvörð á Sadio Mané sem skoraði í tómt markið, 3:2.

Mané skoraði aftur á 86. mínútu en eftir myndbandaskoðun var markið dæmt af vegna rangstöðu.

Varamaðurinn Jarred Bowen fékk dauðafæri til að jafna fyrir West Ham á 88. mínútu þegar hann slapp einn gegn Alisson markverði Liverpool í vítateignum en Brasilíumaðurinn lokaði frábærlega á hann og bjargaði í horn. Óhætt að segja að þar hafi Liverpool sloppið með skrekkinn.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Liverpool 3:2 West Ham opna loka
90. mín. West Ham fær hornspyrnu
mbl.is