Sér eftir að hafa stjakað við Messi

Andrew Robertson er á meðal bestu vinstri bakvarða í heiminum …
Andrew Robertson er á meðal bestu vinstri bakvarða í heiminum í dag. AFP

Andy Robertson, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, sér mikið eftir því að hafa ýtt við Lionel Messi, fyrirliða Barcelona, í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. Atvikið átti sér stað á Anfield í Liverpool en Liverpool var 3:0-undir eftir fyrri leikinn en vann seinni leikinn 4:0 og fór áfram í úrslitaleikinn.

„Ég er þannig gerður að ég reyni að sjá eftir sem minnstu því maður lærir af öllum mistökum sem maður gerir á lífsleiðinni og þau móta mann á sérstakan hátt,“ sagði Robertson í samtali við enska fjölmiðla. „Ég sé hins vegar eftir því að hafa stjakað við Messi og ég var ekki ánægður með sjálfan mig þegar ég sá það aftur,“ sagði Robertson.

„Mér leið illa með það og gerir enn því ég ber mikla virðingu fyrir bæði honum og Barcelona. Við vorum 3:0 undir fyrir seinni leikinn og fórum með það viðhorf inn í leikinn að við hefðum engu að tapa. Við þurftum á hálfgerðu kraftaverki að halda og ég var í raun bara að gera allt sem ég gat til þess að stoppa besta leikmann heims.“

„Ég sé hins vegar eftir hegðun minni því þetta lýsir mér ekki vel. Ég er ekki svona leikmaður en að sama skapi gerðist margt þetta kvöld sem ég man hreinlega ekki eftir. Þetta kveikti í stuðningsmönnum Liverpool því þeir vilja alltaf sjá ástríðu en ég get ekki sagt að ég sé stoltur af þessu,“ bætti bakvörðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert