Áfall í fallbaráttunni

Tomas Soucek í leik með West Ham.
Tomas Soucek í leik með West Ham. AFP

West Ham hefur orðið fyrir áfalli í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta þar sem Tékkinn Thomas Soucek verður frá keppni í um þrjár vikur vegna meiðsla í mjöðm. 

Soucek, sem kom til West Ham frá Slavia Prag á lánssamningi í janúar, þurfti að fara af velli í leiknum gegn Liverpool í gærkvöldi vegna meiðslanna. 

Soucek hefur leikið þrjá leiki með West Ham og þótt standa sig vel. West Ham er í átjánda sæti deildarinnar, einu stigi frá öruggu sæti, en liðið hefur ekki unnið deildarleik síðan á nýársdag. 

mbl.is