Framtíð Solskjærs er hjá United

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Framkvæmdastjóri Manchester United, Ed Woodward, segir félagið hafa lagt grunninn að því að verða sigursælt á nýjan leik og það undir stjórn Ole Gunnars Solskjær.

„Við ætlum okkur að enda tímabilið af krafti, í úrvalsdeildinni, Evrópudeildinni og bikarkeppninni,“ sagði Woodward við blaðamenn eftir að hafa rætt við fjárfesta félagsins fyrr í dag.

Solskjær hefur verið undir nokkurri pressu sem knattspyrnustjóri United en gengi liðsins hefur verið slitrótt í vetur og er liðið í fimmta sæti, 38 stigum á eftir erkifjendunum og nágrönnunum í Liverpool sem sitja á toppnum. Þá hefur félagið ekki orðið enskur meistari síðan 2013, þegar Sir Alex Ferguson hætti störfum.

Woodward segir undirliggjandi rekstur félagsins hafa burði til að styðja við knattspyrnustjórann. „Við höldum áfram að endurnýja liðið, bæði með leikmönnum sem við kaupum og leikmönnum sem koma upp úr unglingastarfinu okkar. Grunnurinn að árangri til langs tíma er til staðar og við höldum ótrauðir að þeim markmiðum með Ole.“

Ed Woodward.
Ed Woodward. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert