Harðneskjuleg framkoma í Brugge

Brandon Williams með boltann í leiknum umrædda í Brugge.
Brandon Williams með boltann í leiknum umrædda í Brugge. AFP

Stuðningsmannasamtök Manchester United hafa sent borgarstjóra Brugge kvörtun eftir harðneskjulega framkomu gagnvart þeim sem ferðuðust á leik Club Brugge og Manchester United í belgísku borginni í síðustu viku.

„Stuðningsmenn óttuðust um öryggi sitt,“ segir í opna bréfinu um þá stuðningsmenn sem ferðuðust frá Englandi til Belgíu. „Margir okkar, sem hafa ferðast um allan heim til að fylgja United, eru á þeirri skoðun að þetta hafi verið versta upplifun af útileik í Evrópukeppni í mörg ár.“

„Við höfum fjölmargar frásagnir um að lögreglan hafi gefið leigubílstjórum fyrirmæli um að halda sig víðs fjarri leikvanginum og taka ekki stuðningsmenn Manchester United upp í bílana sína. Þeirra beið því löng ganga að vellinum við ömurleg veðurskilyrði.“

Bréfið er stílað á borgarstjóra Brugge, Dirk De Fauw, og segir þar einnig að lögreglan hafi meinað United-mönnum um að yfirgefa völlinn eftir leik.

„Við myndum skammast okkar ef komið yrði svona fram við gesti í Manchester. Skammast þú þín ekki yfir því hvernig komið var fram við gesti í þinni borg?“ segir enn fremur í bréfinu en samtökin ætla að kvarta til UEFA.

Liðin skildu jöfn í fyrri viðureign sinni í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar og mætast aftur á Old Trafford í Manchester á fimmtudaginn.

mbl.is