Georginio Wijnaldum, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er ekki á förum frá félaginu strax en hann ætlar sér þó að klára ferilinn í heimalandinu.
Wijnaldum á 18 mánuði eftir af samningi sínum við Liverpool og greindu enskir fjölmiðlar frá því að hann gæti verið á förum frá Englandi í síðasta mánuði en leikmaðurinn sagði það af og frá í viðtali við Sky Sports. Hann vill landa Englandsmeistaratitlinum með Liverpool og skrifa svo undir nýjan samning í sumar.
Hann ætlar hins vegar einn daginn heim en Wijnaldum hóf ferilinn hjá Sparta Rotterdam og síðan Feyenoord, þar sem hann varð bikarmeistari árið 2008. Hann fór síðan til PSV og varð einn sterkasti leikmaður hollensku deildarinnar áður Newcastle keypti hann í ensku úrvalsdeildina 2015. Ári síðar færði hann sig yfir á Anfield en Liverpool borgaði 23 milljónir punda fyrir hann.
„Ég sé mig spila með Feyenoord, PSV eða Sparta aftur í framtíðinni,“ sagði hann í viðtali við Rijnmond í heimalandinu en hann er orðinn 29 ára gamall. „Ég lofa engu og vil spila eins lengi og hægt er. Eins og Clarence Seedorf, Zlatan Ibrahimovic og Cristiano Ronaldo, ég vil spila á hæsta stigi þangað til ég verð 38 ára.“